Forval demókrata og repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum heldur áfram og nú verður kosið í fjórum ríkjum. Mögulegt er að endanleg niðurstaða fáist í því hverjir verði útnefndir sem frambjóðendur flokkanna.
Sjónir allra beinast að kosningunum í Ohio og Texas, en einnig verða greidd atkvæði í Rhode Island og Vermont.
Demókratinn Barack Obama hefur sagt að Hillary Clinton þurfi mögulega að draga framboð sitt til baka vinni hann í Texas og Ohio. Clinton segist hins vegar ætla að halda baráttunni áfram, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Þá eru einnig góðar líkur á því að John McCain verði endanlega staðfestur sem forsetaefni Repúblikanaflokksins þegar búið er að telja upp úr kjörkössunum. Talið er að hann sigri Mike Huckabee í öllum ríkjunum fjórum.