Ísraelar segja Hisbollah hreyfinguna vera að safna vopnum og að þeir búi yfir 10.000 langdrægum eldflaugum og 20.000 skammdrægum eldflaugum í suðurhluta Líbanons. Þetta kemur fram í skýrslu sem Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fyrir öryggisráði SÞ í dag.
Þótt upplýsingar Ísraela sé ekki staðfestar í skýrslunni þá lýsti Ban áhyggjum sínum af þessum upplýsingum og nýlegum stríðsyfirlýsingum Hisbollah. Þá benti hann á ítrekaðar fregnir af því að samtökin rjúfi vopnahlésskilmála SÞ í Líbanon þar sem vopnaflutningar eru bannaðir.
Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah sakaði í febrúar Ísraela um að reyna að hefja stríð með því að myrða, Imad Mughniyeh, hátt settan yfirmann í samtökunum og sagði Ísraela munu tapa slíku stríði.
Ísraelar hafa hins vegar neitað því að hafa átt þátt í tilræðinu gegn Mughniyeh.
„Fregnir af því að Hisbollah safni nú vopnum eru mikið áhyggjuefni og ógna sjálfstæði og stöðugleika Líbanons", sagði Ban.
Þá sagði Ban, er hann ávarpaði ráðið, að hann tryði því að afvopnun Hisbollah og annarra vopnaðra samtaka væri nauðsynlegur þáttur í því pólitíska ferli í Líbanon sem leiða eigi til þess að tryggja aftur stjórn líbanskra stjórnvalda í landinu.