Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, hefur samþykkt að hefja friðarviðræður við ísraelska ráðamenn að nýju þrátt fyrir að vopnahlé sé ekki komið á á milli Ísraela og herskárra Palestínumanna á Gasasvæðinu. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Abbas lýsti því yfir á laugardag að hann hefði slitið viðræðum við Ísraela vegna hernaðar þeirra á Gasasvæðinu og ítrekaði í morgun að hann myndi ekki hefja friðarviðræður að nýju fyrr en vopnahlé væri komið á. Hann gaf síðan út yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að hann hafi fallist á að hefja viðræður að nýju. „Friðarferlið er hernaðarleg ákvörðun og við höfum ákveðið að hefja friðarviðræður að nýju,” segir í yfirlýsingunni.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lauk í dag tveggja daga viðræðum sínum við ráðamenn í Ísrael og á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum með fundi með Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, og Tzipi Livni utanríkisráðherra. „Málsaðilar hafa sagt mér að þeir hyggist hefja viðræður að nýju og að þeir hafi haft samband sín á milli um það hvernig að því verður staðið,” sagði hún að fundinum loknum
Þá sagði hún Abbas vilja að Ísraelar hætti hernaðaraðgerðum sínum á Gasasvæðinu en að hann setji það ekki sem skilyrði fyrir viðræðum.