Baráttunni um útnefningu Demókrataflokksins fyrir komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum er hvergi nærri lokið en Hillary Clinton sýndi mikinn baráttuvilja þegar hún sigraði í forkosningum demókrata í Texas og Ohio í gær. Þá hefur John McCain tryggt sér útnefningu Repúblikaflokksins.
Clinton sýndi hvers hún er megnug og þykir ljóst að hún er ekki af baki dottin í baráttu sinni við Barack Obama. Hún sagði á fundi stuðningsmanna sinna í Ohio að hún ætli alla leið í Hvíta húsið. Obama, sem vann góðan sigur í Vermont, lét það ekki mikið á sig fá að hann hafi beðið lægri hlut í Texas og Ohio og sagði að hann muni verða forsetaefni demókrata.
Demókratar munu næst kjósa í Wyoming og Mississippi. Þann 22. apríl nk. verður kosið í Pennsylvaníu og er sá dagur sagður geta ráðið úrslitum.
„Við erum enn með, við erum að styrkjast og við ætlum alla leið,“ sagði Clinton við stuðningsmenn sína í Ohio. „Við erum rétt að byrja.“
McCain vann stóra sigra í Vermont, Ohio, Texas og Rhode Island og varð það til þess að Mike Huckabee dró framboð sitt til baka.
George W. Bush Bandaríkjaforseti mun lýsa yfir stuðningi við McCain í dag. McCain hefur heldur betur náð að snúa stöðunni sér í vil en fyrir ári síðan var allt útlit fyrir að hann ætti ekki möguleika á að hljóta útnefningu repúblikana.