Stjórnvöld í Ekvador hafa hvatt Samtök Ameríkuríkja (OAS) til að fordæma Kólumbíu fyrir að hafa í leyfisleysi ráðist inn í Ekvador á laugardag og fellt þar 17 liðsmenn skæruliðasamtakanna Farc, þar á meðal leiðtoga þeirra Raul Reyes.
Á neyðarfundi samtakanna sagði Maria Isabel Salvador, utanríkisráðherra Ekvador, að afsökunarbeiðni væri ekki nóg og fór hún fram á ítarlega rannsókn á málinu.
Sendiherra Kólumbíu hjá OAS, Camilo Ospina, neitaði því að Kólumbía hafi gert innrás í Ekvador. Hann sagði að hermennirnir hafi verið í kólumbískri lofthelgi þegar þeir skutu á Farc-liðana úr herþyrlum.
Þá ítrekaði hann að skjöl sem fundust í búðum skæruliðanna hafi tengt bæði Ekvador og Venesúela við Farc.
Fulltrúi Bandaríkjanna í OAs, Robert Manzanares, lýsti yfir stuðningi við aðgerðir Kólumbíu og sagði að álfunni stæði ógn af Farc.