Kjósendur í tveimur smábæjum í Vermont í Bandaríkjunum hafa samþykkt að gefin verði út handtökuskipun á hendur George W. Bush, Bandaríkjaforseta og varaforsetanum Dick Cheney á þeim forsendum að þeir hafi brotið gegn stjórnarskrá landsins.
Ákvörðunin, sem samþykkt var í smábæjunum Brattleboro og Marlboro er táknræn frekar en nokkuð annað, en í henni er kveðið á um að lögregla bæjanna eigi að handtaka þá kumpána ef þeir láti sjá sig í bænum og framselja þá viðeigandi yfirvöldum.
Ríkið Vermont er meðal annars þekkt fyrir gómsætt hlynsýróp og fallegt landslag, en einnig þykja þeir hallir undir frjálslyndar stjórnmálaskoðanir.
Þingmenn í ríkinu hafa áður samþykkt ályktanir um að binda enda á stríðið í Írak og ákæra þá Bush og Cheney, án þess þó að hafa fengið mikinn hljómgrunn í Washington.
Bush hefur aldrei heimsótt Vermont opinberlega, en hefur hins vegar dvalið í nágrannaríkinu Maine í sumarleyfum.