Hveitisveppur sem valdið hefur usla í austurhluta Afríku og Jemen hefur náð fótfestu í Íran og hefur matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna varað við því að mögulegt sé að sveppurinn stefni í átt að Mið Asíu og Indlandi.
Rannsóknir á sveppnum hafa staðfest að sveppurinn hafi borist til vesturhluta Írans og veldur það áhyggjum þar sem mikil hveitiframleiðsla er í nálægum löndum á borð við Afganistan, Indland, Pakistan, Túrkmenistan, Úsbekistan og Kasakstan.
Gró sveppsins fundust fyrst í Úganda árið 1999, en hann getur borist um langar leiðir með vindi. Sveppurinn skemmdi stóran hluta uppskeru í Eþíópíu og Kenía á síðasta ári og náði enn skæðara afbrigði hans til Jemen síðar á síðasta ári.
Matvæla- og landbúnaðarstofnunin hvetur alþjóðasamfélagið og þau lönd þar sem sveppurinn hefur komið upp til að fylgjast náið með honum og vinna að því að þróa hveitiafbrigði sem ónæm eru fyrir sveppnum.