Lögðu hald á mafíueignir

Ítalska lögreglan hefur lagt hald á eignir og muni mafíunnar í Calabriu, sem kallast Ndrangheta. Verðmætið þess sem lögreglan lagði hald á nemur rúmum 14 milljörðum króna. 

Vopnaðir lögreglumenn lögðu hald á nokkur hús, bíla, landareignir og fyrirtæki í Calabriu og í Lombardi. Um er að ræða höfuðvígi tveggja mafíugengja sem lögregluna grunar um að tengjast sex morðum sem framin voru í Þýskalandi í ágúst.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að 30 manns hafi verið handteknir frá því sex Ítalir voru skotnir til bana í borginni Duisburg í norðvesturhluta Þýskalands.

Innistæður í bönkum voru frystar er grímuklæddir lögreglumenn létu til skarar skríða í gær. Áhlaup lögreglunnar á sér stað tveimur vikum eftir að lögreglan handtók Pasquale Condello, leiðtoga Ndrangheta, í Calabriu.

Þeir 14 milljarðar sem lögreglan lagði hald á nú er bara lítill hluti af hagnaði glæpagengisins, en Ndrangheta hefur nánast einkarétt á kókaíninnflutningi frá Kólumbíu. Verðmætið er talið nema rúmum 3000 milljörðum króna. 

Í nýrri skýrslu, sem var birt í síðustu viku, kemur fram að starfssemi glæpagengisins hafi teygt sig frá Ítalíu til bróðurpartar Evrópu, til Bandaríkjanna, Argentínu og Ástralíu.

Ítalskir lögreglumenn sjást hér leiða Pasquale Condello, leiðtoga Ndrangheta, á …
Ítalskir lögreglumenn sjást hér leiða Pasquale Condello, leiðtoga Ndrangheta, á milli sín þegar hann var handtekinn í febrúar sl. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert