A.m.k. sjö manns hafa verið frelsaðir úr ánauð í Súdan frá því tilraunir til að frelsa þræla frá suður-Súdan úr ánauð í norðurhluta landsins voru hafnar að nýju. Talið er að um 8.000 þeldökkra Suður-Súdana séu enn í ánauð araba í norðurhluta landsins en stefnt er að því að frelsa 1.200 þeirra á næstunni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Átaki til að frelsa þræla sem hnepptir hafa verið í ánauð í átökunum í Suður-Súdan var hrint af stað árið 2005 en það var stöðvað af fjármögnunaraðilum eftir að fréttir bárust af því að fólk hefði verið neytt til að snúa til sinna fyrri heimkynna gegn vilja þess og að aðrir hafi verið skildir eftir á vergangi. Á milli 3.000 og 6.000 manns höfðu þá verið leystir úr ánauð.
Ahmed Mufti, formaður stofnunarinnar CEAWC sem stjórnar átakinu, segir að heimastjórnin í Suður-Súdan hafi nú útvegað stofnuninni eina milljón Bandaríkjadollara til verkefnisins.
Þá segir hann að sjö hafi verið leystir úr ánauð á einnig viku og að ættbálkahöfðingjar hafi lýst yfir vilja til að leysa fleiri gísla úr ánauð. „Þeir hafa ekkert á móti því. Eini vandinn er peningar,” segir hann. Hann segir þó ekki greitt fyrir lausn þrælanna heldur fari fjármunirnir í flutningskostnað og uppihalda starfsmanna og þeirra sem frelsaðir hafi verið.Þá segir hann upplýsingar liggja fyrir um það hvar þeir sem enn séu í ánauð séu niðurkomir en að meiri fjármuni vanti til að hægt sé að sækja þá alla.
Yfirvöld í Súdan neita því að fólk sé í ánauð í landinu en viðurkennir af fólk hafi verið tekið í gíslingu í átökunum í suðurhluta landsins. Segja þau að það hafi verið gert samkvæmt hefðum sem skapist hafi í átökum ættbálka í landinu.