Staða mannréttindamála á Gaza hefur ekki verið verra frá því Ísralear hófu hernaðaraðgerðir sínar þar árið 1967. Þetta segja mannréttinda- og hjálparsamtökin Amnesty International, Save the Children, Cafod, Care International og Christian Aid.
Samtökin gagnrýna aðgerðir Ísraela á Gaza sem hafa girt svæðið af og lokað íbúanna inni. Þau segja að aðgerðirnar séu ólöglegar, öllum íbúunum sé refsað og öryggi þeirra sé ekki tryggt, að því er fram kemur á vef BBC.
Ísraelar segja hins vegar að heraðgerðirnar séu löglegar og nauðsynlegar svo koma megi í veg fyrir að uppreisnarmenn skjóti eldflaugum frá Gaza og yfir á ísraelskt landsvæði.
Í skýrslu samtakanna, sem ber heitið „Gaza Strip: A Humanitarian Implosion“, kemur fram að aðgerðir Ísraelshers hafi haft alvarlegar afleiðingar á Gaza. Þar sé fátækt og atvinnuleysi mikið auk þess sem mennta- og heilbrigðismál séu í miklum ólestri.
Um 1,1 milljón íbúa á Gaza treysta alfarið á mataraðstoð. Um 110.000 manns unnu í einkageiranum, af þeim hafa 75.000 misst vinnuna, að því er segir í skýrslunni.
Að sögn Geoffrey Dennis, hjá Care International, er mikilvægt að Ísraelar hætti aðgerðum sínum á Gaza þegar í stað. Verði það ekki gert verður nær ómögulegt að afstýra stórslysi og allar vonir manna um að friður náist á svæðinu verða að engu.