Bíll sprakk í miðborg Malmö í morgun. Klukkustund síðar frömdu tveir menn vopnað rán í útibúi Handelsbanken við Jägersbro. Mennirnir komust undan. Lögreglan segist ekki vilja slá því föstu að málin tengist en grunur leikur á að sprengjan tengist einhverju stærra máli.
Samkvæmt sænskum fjölmiðlum sakaði engan við sprenginguna en eigandi bílsins hafði skömmu áður ekið barni sínu á leikskóla í honum. Afturendi bílsins tættist í sundur en lögreglan hefur staðfest að sprengjunni mun hafa verið komið fyrir undir bílnum.