Hæstiréttur á Balí í Indónesíu hefur mildað dauðadóm yfir þrem Áströlum og breytt honum í lífstíðarfangelsi. Mennirnir þrír voru dæmdir til dauða fyrir að smygla heróíni til Balí í Indónesíu, en þeir voru í níu manna hópi sem var handtekinn í apríl 2005, með 8,3 kíló af heróíni.
Fram kemur á fréttavef BBC að verjendur mannanna rökræddu að þeir verðskulduðu að dómurinn yrði mildaður því þeir eru ekki síbrotamenn. Þremenningarnir höfðu verið dæmdir til dauða árið 2006 eftir að saksóknarar áfrýjuðu upprunalegum dóm um lífstíðarfangelsi.
Átta karlmenn og ein kona voru handtekin en nokkrir voru handteknir á flugvellinum með heróínið inni á sér, en aðrir voru handteknir á nálægu hóteli.
Þrír eiga yfir höfði sér dauðadóm og þrír langa fangelsisvist, en dómar í málinu fara eftir hlutverki hvers og eins í smyglinu.