Sérfræðingar bandarísku alríkislögreglunnar FBI vinna nú að rannsókn sprengingarinnar sem varð við Times Square í New York í morgun ásamt hryðjuverkadeild lögreglunnar í New-Yorkborg (NYPD). Samkvæmt upplýsingum lögreglu urðu minniháttar skemmdir er lítil sprengja sprakk við skráningarskrifstofu Bandaríkjahers í morgun. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
„Þeir eru að safna sönnunargögnum, taka viðtöl og hefja rannsókn,” segir fjölmiðlafulltrúi FBI. „Allir þeir sem hafa einhverjar upplýsingar eru beðnir um að snúa sér til FBI eða NYPD. Hann vildi ekki tjá sig nánar um málið en töluvert hefur verið um mótmælasamkomur andstæðinga hernaðar Bandaríkjanna í Írak og Afganistan við umrædda skráningarstofu.
Lögregla og slökkvilið stöðvaði umferð um nærliggjandi götur um tíma í kjölfar sprengingarinnar. Þá var umferð gangandi vegfaranda stöðvuð á milli 43 og 44 Strætis og lestarferðir um Times Square féllu niður um tíma. Atvikið hafði þó ekki áhrif á samgöngur á háannatíma í morgun.