McCain undir í skoðanakönnunum

Öldungadeildaþingmaðurinn John McCain
Öldungadeildaþingmaðurinn John McCain Reuters

John McCain, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum er með  minna fylgi en Barack Obama og Hillary Clinton, sem bítast um að verða frambjóðandi Demókrataflokksins, á landsvísu í skoðanakönnun frá Washington Post og ABC News, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.

Obama er með 12% meira fylgi en McCain, 52% á móti 40% McCain og Clinton er með 6% meira fylgi en McCain, 50% á móti 44% McCain.  Á meðan Obama og Clinton eru enn í harðri baráttu um tilnefningu síns flokks getur McCain einbeitt sér að forsetaframboðinu þar sem hann er sá eini sem er enn í framboði sem forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins.

McCain, sem nýtur opinbers stuðnings George W. Bush Bandaríkjaforseta, stendur illa að vígi hjá fólki sem ósátt er við forsetann og Íraksstríðið. Um 2/3 hluti Bandaríkjamanna er ekki sátt við hvernig Bush hefur staðið sig og telur að stríðið hafi ekki verið þess virði að heyja.

Um 27% Bandaríkjamanna hafa áhyggjur af háum aldri McCain og er sú tala tvöfalt hærri en þeir sem hafa áhyggjur af því að næsti forsetinn verði annaðhvort blökkumaður eða kona. 

Þegar talað er um reynslu styðja 68% við McCain frekar en Obama.  Hins vegar kjósa 80% Obama þegar talað er um stefnubreytingu og nýjar hugmyndir.  Þegar litið er til Clinton þá hefur McCain vinninginn hvað reynslu varðar en 2/3 hlutar kjósenda vilja Clinton þegar talað er um breytingu á stjórnarháttum.

Obama hefur einnig betur þegar litið er til stefnumála eins og hagkerfið, heilsuþjónustu, innflytjendamál og siðareglur í ríkisstjórn.  Kjósendur telja hins vegar að McCain væri betri í baráttunni við hryðjuverk. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert