Yfirvöld í Bólivíu og Perú verja notkun kókalaufa eftir að löndin voru gagnrýnd í skýrslu á vegum Alþjóðafíkniefnaráðsins. Ráðamenn í Perú segja að í skýrslunni sé einblínt á ræktun kókalaufsins fyrir framleiðslu kókaíns, en ekki sé litið til þess að kókalauf hafa verið notuð af innfæddum öldum saman í lækningaskyni og fyrir trúarathafnir.
Fram kemur á fréttavef BBC að utanríkisráðherra Perú, Jose Belaunde, segir að jafnvægi þurfi að vera á milli þess að leyfa ræktun kókalaufsins til hefðbundinnar notkunar, og þess að koma í veg fyrir að það sé notað til framleiðslu kókaíns. Í augum innfæddra sé kókalaufið heilagt lauf sem er hluti af menningarlegu kennimarki þeirra.
Þá segir þingkonan Maria Sumire að Sþ beri ekki virðingu fyrir því að íbúar í Andesfjöllunum hafi notað laufin öldum saman til þess að minnka hungur eða þreytu, í lækninga eða trúarlegum tilgangi en laufin eru ýmist tuggin eða búið til te úr þeim.
Í árlegri skýrslu Alþjóðafíkniefnaráðsins segir að Perú og Bólivía eigi að banna framleiðslu kókatessins og að kókalaufið sé tuggið. Í skýrslunni eru löndin tvö minnt á það að notkun kókalaufsins eigi að takmarkast við vísindalega og læknisfræðilega notkun. Perú og Bólivía framleiða mest af kókaíni í heiminum á eftir Kólumbíu.