Talsmaður palestínsku Hamas samtakanna lýsti því yfir í dag að samtökin beri ábyrgð á skotárás sem varð átta ungum mönnum að bana í Jerúsalem í gær. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Áður höfðu fulltrúar samtakanna lofað árásina án þess að lýsa yfir ábyrgð á henni og sagði talsmaður Ísraelsku stjórnarinnar það vera skýran vott um það hvað samtökin standi fyrir. „Þetta eru afgerandi tímar,” sagði talsmaðurinn Mark Regev. „Leiðtogar Hamas á Gasasvæðinu hafa fagnað árásinn og þannig afhjúpað hverjir þeir eru í raun.”
Árásarmaðurinn, Ala Abu Dhaim, réðst inn á bókasafn Merkaz Harav skóla bókstafstrúaðra gyðinga í Jerúsalem í gærkvöldi en um 1.000 piltar og fullorðnir karlmenn stunda nám og fræðistörf við skólann.
Tíu ættingjar Dhaim voru handteknir í kjölfar árásarinnar í gær en þeim hefur flestum verið sleppt aftur. Þá hefur verið greint frá því að hann hafi um tíma starfað sem bílstjóri fyrir skólann.
Árásin er mannskæðasta árás Palestínumanns í Ísrael í tvö ár og mannskæðasta árás sem gerð hefur verið í Jerúsalem í fjögur ár.
Skólinn hefur sterkt tengsl við samtök landnema gyðinga á Vesturbakkanum og er það talin líkleg ástæða árásarinnar.