Ísraelar halda áfram viðræðum við Abbas

Ísraelsk yfirvöld hafa lýst því yfir að þau muni ekki slíta friðarviðræðum við Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, í kjölfar árásar á yeshiva-skóla í Jerúsalem í gærkvöldi en átta nemar við skólann lét lífið í árásinni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Abbas, sem sjálfur sleit viðræðunum um síðustu helgi vegna hernaðar Ísraela á Gasasvæðinu, fordæmdi árásina í gær en hann lýsti því yfir í fyrradag að hann væri tilbúinn til að hefja friðarviðræður að nýju. 

Talsmaður palestínsku Hamas-samtakanna fagnaði árásinni hins vegar í gær og sagði hana „eðlileg viðbrögð” við hernaðaraðgerðum Ísraela sem kostað hafa 120 Palestínumenn lífið á einni viku. 

Árásarmaðurinn var skotinn til bana eftir að hann hafi skotið á nemendur á þéttsetnu bókasafni skólans í u.þ.b. tíu mínútur. Hann var samkvæmt heimildum ísraelskra fjölmiðla Palestínumaður frá Austur-Jerúsalem. 

Yeshiva-skólar eru mennta og fræðimannastofnanir bókstafstrúaðra gyðinga þar sem unglingar og fullorðnir karlmenn leggja stund á Biblíunám. Umræddur skóli tengist einnig uppbyggingu landnemabyggða gyðinga á Vesturbakkanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert