Þúsundir hafa safnast saman við Mercaz Harav yeshiva-skólann í Jerúsalem í morgun þar sem átta nemendur voru skotnir til bana í gær. Minnigarathöfn stendur nú yfir en mennirnir verða bornir til grafar í Jerúsalem í dag. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Rabbíninn Ya'akov Shapira gagnrýndi ísraelsk stjórnvöld harðlega fyrir það við athöfnina og sagði þau allt of tilbúin til að gefa Palestínumönnum eftir landsvæði. Skólinn, sem er menntastofnun fyrir unglinga og fullorðna karlmenn, tengist uppbyggingu landnemabyggða gyðinga á Vesturbakkanum og er talið hugsanlegt að það hafi verið ástæða árásarinnar.
„Það er kominn tími til að við gerum okkur öll grein fyrir því að á sama tíma og ytri barátta er háð þá á sér einnig stað innri barátta,” sagði hann. „Það vita allir að kominn er tími til að við sáum góða leiðtoga, sterka leiðtoga, leiðtoga sem hafa heitari trúarsannfæringu,” sagði hann.
Mikill öryggisviðbúnaður er í Ísrael í kjölfar árásarinnar en talið er hugsanlegt að til uppþota komi að útförunum loknum. Þá er talið hugsanlegt að múslímar efni til mótmælaaðgerða að loknum föstudagsbænum í dag.
Mennirnir sem létu lífið í árásinni voru allir á aldrinum 16 til 26 ára.