Ráðgjafi Baraks Obama hefur látið af störfum eftir að hafa sagt í viðtali við skoskt dagblað að Hillary Clinton væri „skrímsli“ sem gera myndi hvað sem væri til að sigra í keppninni um útnefningu sem forsetaframbjóðandi demókrata.
Ráðgjafin, Samantha Powers, baðst afsökunar á orðum sínum, en talsmaður kosningabaráttu Obamas tjáði Associated Press í dag að Powers hefði þegar látið af störfum.
Í samtali við blaðamann The Scotsman sagði Powers að Clinton væri skrímsli sem léti sér ekkert fyrir brjósti brenna. Eftir að Powers lét þessi orð falla bætti hún því við að ekki mætti hafa þau eftir sér, en blaðið birti þau engu að síður.
Powers var ráðgjafi Obamas í utanríkismálum. Hún er prófessor við Harvardháskóla og Pulitzerverðlaunahafi.