Konur leita ástvina sinna

Um allan heim þurfa hundruð þúsunda kvenna að þola hörmungar af völdum vopnaðra átaka. Meðal þess sem veldur þeim mestum þjáningum er það hve erfitt getur reynst að fá vitneskju um horfna ættingja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum.

„Flestir þeirra sem eru drepnir eða hverfa eru karlmenn og því lendir það fyrst og fremst á konum að reyna að komast að því hvað orðið hafi um þá. Í tilefni af alþjóðlega kvennadeginum 8. mars vill Alþjóða Rauði krossinn vekja athygli á því starfi sem unnið er til að draga úr þjáningum þeirra kvenna sem leita að horfnum ástvinum víða um heim.

Við leituðum um allt. Við fórum í öll fangelsi og leituðum upplýsinga hjá stofnunum sem safna gögnum um látið eða horfið fólk. Við leituðum í meira en fjóra mánuði," segir Ashwak sem er flóttakona frá Írak sem býr nú í Jórdaníu.  Hún veit ekkert um afdrif eiginmanns síns. "Við leituðum á öllum hugsanlegum stöðum, en alltaf fengum við sama svarið - að um hann væru ekki til neinar upplýsingar. Við höldum samt enn í vonina."

Það veldur miklum tilfinningalegum erfiðleikum að vita ekki um afdrif ástvina. Það er erfitt að þurfa að syrgja látinn ástvin, en það er jafnvel enn erfiðara að fá alls ekkert tækifæri til að syrgja. Margar konur leita árum saman líkt og Ashwak og eyða jafnvel aleigu sinni í árangurslausa leit. Fyrir þær konur sem eru að leita að horfnu barni, föður eða eiginmanni þýðir það ekki að sálarkvölum sé lokið þó að hörmungar vopnaðra átaka séu á enda. Með því að hætta að leita finnst þeim oft eins og þær séu að svíkja þann horfna.

Sá horfni er oft jafnframt fyrirvinna fjölskyldunnar eða eini skráði eigandinn að eignum fjölskyldunnar. Lítið menntaðar konur með takmarkaða starfsmöguleika eru því oft illa búnar undir að taka að sér þau hlutverk sem eiginmaðurinn hafði áður með höndum og búa stundum við mikla örbirgð. Þar að auki hefur lagaleg staða eiginkonu eða afkomenda horfinna einstaklinga oft áhrif á eignarétt, forræði barna, erfðarétt og möguleika á því að giftast að nýju.

Á alþjóðlega kvennadeginum í ár viljum við beina athyglinni sérstaklega að þjáningum þeirra kvenna leita karlmanna sem tilheyra fjölskyldunni, segir Florence Tercier, sem er yfir verkefni Alþjóða Rauða krossins til aðstoðar stríðshrjáðum konum. Það þarf að gera allt sem er hægt til að koma í veg fyrir að fólk hverfi og jafnframt þarf að sjá þeim konum sem efir sitja fyrir þeim stuðningi sem þær þurfa á að halda.

Allt of oft gera aðilar að átökum lítið til að varpa ljósi á afdrif þeirra sem hafa horfið. Fyrir hönd þeirra sem leita að týndum ættingjum minnir Alþjóða Rauði krossinn (ICRC), valdhafa í viðkomandi löndum á skyldur þeirra í þessum efnum. Alþjóða Rauði krossinn á samstarf við hin ýmsu landsfélög Rauða krossins og þar á meðal Rauða kross Íslands um að taka við leitarbeiðnum frá fjölskyldum sem ekki vita hvað varð um ættingja meðan á átökum stóð. Reynt er að finna þessa einstaklinga eftir öllum hugsanlegum leiðum," að því er segir tilkynningu frá Rauða krossinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert