Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, veifaði glaðlega til ljósmyndara er hún kom af sjúkrahúsi í London í dag, eftir að hafa dvalið þar í nótt og gengist undir rannsókn. Hún veiktist í gærkvöldi er hún sat að kvöldverði með vinum sínum.
„Hún er vel á sig komin og hvíldist í nótt. Henni líður miklu betur,“ sagði Mark Worhington einkaritari hennar.
Thatcher var forsætisráðherra Bretlands frá 1979-1990 og var fyrsta konan til að gegna því embætti. Hún var stundum nefnd „Járnfrúin“ vegna þess hve hún þótti fylgin sér.
Undanfarið hefur hún æ sjaldnar sést opinberlega, en 2002 bönnuðu læknar henni að ávarpa fjölmennar samkomur af heilsufarsástæðum. Hún hefur fengið nokkur minniháttar heilaáföll, sem vinir hennar segja að hafi haft áhrif á skammtímaminnið.