Mútað með vodka og pítsu

Pólskir byggingaverkamenn í Noregi segja að sér hafi verið mútað með vodka og pítsum til að halda kjafti um þann skelfilega aðbúnað sem þeim var boðið upp á. Norskir heilbrigðisfulltrúar segjast sjaldan eða aldrei hafa hafa séð svo svívirðilega misnotkun á verkamönnum í Noregi.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten. Heilbrigðiseftirlitið hefur stöðvað framkvæmdir við tvær byggingar í Ósló sem vinnuveitandi Pólverjanna var að byggja.

Eigandi verktakafyrirtækisins er í fríi, en starfsfólk þess hefur tekið við alvarlegum athugasemdum opinberra heilbrigðisfulltrúa.

Um það bil 70 pólskir verkamenn bjuggu við mikil þrengsli og slæman aðbúnað og mörgum var gert að vinna 60 stunda vinnuviku. Fengu þeir þar að auki mun lægri laun en nam lögbundnum lágmarkslaunum í Noregi.

Þessu til viðbótar voru þeir rukkaðir um leigu fyrir híbýlin, sem í sumum tilvikum voru gámar og í öðrum vinnuskúrar eða niðurnítt húsnæði með ófullnægjandi raflögnum og salernisaðstöðu.

Eftir að norskir fjölmiðlar greindu frá aðbúnaði verkamannanna voru þeir flestir fluttir með rútu aftur til Póllands, en þeim sem neituðu að fara var boðinn vodki og pítsur ef þeir lofuðu að þegja um aðbúnaðinn, að því er mun hafa verið haft eftir þeim.

Einnig sögðu þeir að vinnuveitandinn, verktakinn, hefði boðið þeim háar fjárhæðir ef þeir vildu koma fram í sjónvarpi og hafna ásökunum heilbrigðisyfirvalda.

Aftenposten segir að Pólverjarnir vonist nú til að finna nýjan vinnuveitanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert