Bjargaði fjölskyldu úr eldsvoða

Ungur Svíi bjargaði norskri fjögurra manna fjölskyldu frá vísum bana er hann klifraði inn um svalir á alelda íbúð á fyrstu hæð í blokk við Vålerenggata í Ósló í nótt. Hann átti leið um fyrir tilviljun og sá reyk leggja út úr íbúðinni og er í norskum og sænskum fjölmiðlum hylltur sem hetja.

Svíinn sem er 23 ára bjargaði 35 ára gamalli þriggja barna móður, dóttur hennar sem er 13 ára og tveimur drengjum sem eru 6 og 3 ára.
Í Aftenposten segir að mikinn reyk hafi lagt út frá eldsvoðanum og bæði fjölskyldan og hetjan sem bjargaði þeim voru lögð inn á sjúkrahús vegna reykeitrunar. Samkvæmt slökkviliðinu í Ósló var reykskynjari í íbúðinni en hann reyndist vera óvirkur.

Svíinn varð eldsins var um klukkan þrjú og þurfti að skríða eftir gólfinu til að ná fjölskyldunni út en síðan var íbúðarhúsið rýmt af samtals 21 íbúum.

Haft er eftir einum íbúanna að engill hafi átt leið um og bjargað fjórum mannslífum og er þar átt við hinn 23 ára gamla Svía.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert