Bout neitar sekt

Rússneskur karlmaður sem er grunaður um að hafa selt talibönum og uppreisnarmönnum víðsvegar í Afríku vopn heldur fram sakleysi sínu en hann var handtekinn í Bankok í Taílandi í síðustu viku. Fer hann fram á að vera látinn laus úr haldi gegn tryggingu. Bandarísk stjórnvöld hafa farið fram á framsal mannsins.

Viktor Bout, 41 árs, sem gjarna hefur hefur gengið undir heitinu „kaupsýslumaður dauðans", var handtekinn á fimmtudag en bandarísk stjórnvöld og taílensk höfðu fylgst með honum í fjóra mánuði áður en lögregla lét til skarar skríða. Er hann ákærður fyrir samsæri um tilraun til þess að smygla eldflugum og fleiri vopnum til uppreisnarmanna í Kólumbíu.

Að sögn lögfræðings Bout, Lak Nitiwatanavichan, neitar Bout því að hafa brotið af sér.

Bandarísk stjórnvöld krefjast framsals Bout en af því verður ekki strax, samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Taílandi. Í síðustu viku var gefin út ákæra á hendur Bout af alríkisstjórninni í Bandaríkjunum þar sem hann er ákærður fyrir að hafa selt vopn fyrir milljónir Bandaríkjadala til kólumbísku skæruliðasamtakanna Farc en samtökin eru á lista yfir hryðjuverkasamtök í Bandaríkjunum. Bout og aðstoðarmaður hans, Andrew Smulian, eru ákærðir um samsæri með því að útvega útlendum hryðjuverkasamtökum vopn.

En bandarísk stjórnvöld eru ekki ein um hituna því taílensk stjórnvöld rannsaka nú hvort Bout hafi gerst sekur um að útvega hryðjuverkamönnum vopn. Ef hann verður fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisdóm í Taílandi.

Bandarísk stjórnvöld og Sameinuðu þjóðirnar hafa lengi haldið því fram að Bout hafi smyglað vopnum til Afríku og meðal viðskiptavina hans séu Charles Taylor, fyrrum forseti Líberíu, leiðtogi Líbýu, Moammar Gadhafi, fyrrum leiðtogi Kongó, Sese Seko og stríðandi fylkingar í Angóla. Jafnframt er talið að Bout hafi útvegað talibönum vopn í Afganistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert