Karlmaður handtekinn vegna morðs á unglingsstúlku

Lögregla á Indlandi hefur handtekið karlmann í tengslum við lát 15 ára gamallar breskrar stúlku sem fannst látin á ströndinni í Goa í suðurhluta Indlands þann 18. febrúar sl. Er maðurinn, Samsung D'Souza, 29 ára, grunaður um að hafa nauðgað stúlkunni, Scarlett Keeling, og myrt hana.

Keeling sást síðast á lífi kvöldið áður á bar ásamt hópi indverskra karlmanna. Var D'Souza einn þeirra. Að sögn vitna sást hann í vafasömum athöfnum með stúlkunni um nóttina. Tveir aðrir voru yfirheyrðir vegna málsins í gær og telur lögregla líklegt að fleiri verði handteknir í tengslum við málið síðar.

Rannsókn málsins hefur miðað hægt enda var lögregla sannfærð um að stúlkan hefði drukknað þar sem hún var drukkin þetta kvöld. Fjölskylda stúlkunnar hefur staðfastlega neitað að slíkt hafi getað gerst og ásakaði lögreglu um að hylma yfir morðingjum hennar. Því kröfðust þau þess að krufning yrði endurtekinn og málið rannsakað frekar. 

Að sögn móður stúlkunnar vissu þau í hjarta sínu að hún hefði verið myrt og því hafi þau barist fyrir því að lát hennar yrði rannsakað frekar. Keeling var ásamt móður sinni í leyfi á Indlandi og voru fleiri ættingjar með í för. Þegar hún lést var fjölskyldan á ferðalagi annars staðar á Indlandi.

Niðurstaða seinni krufningarinnar bendir einnig til þess að hún hafi drukknað en í ljós komu frekari áverkar og því mælt með því að málið yrði rannsakað sem morðmál.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert