Ríkisstjóri grunaður um kaup á vændi

Ríkisstjórinn í New York, Eliot Spitzer, sem þekktur er fyrir baráttu sína fyrir bættu siðferði í stjórnmálum, liggur undir grun um að hafa átt fund með vændiskonu á hóteli í Washington. Alríkislögreglan tók upp á segulband það sem fram fór á fundi Spitzers með vændiskonunni.

The New York Times greindi frá þessu í dag, og eftir það kom Spitzer fram opinberlega og baðst afsökunar á framferði sínu, en sagði ekki af sér embætti. Kvaðst hann hafa brugðist sínum eigin siðferðiskröfum.

Fregnir herma að Spitzer hafi leitað eftir stefnumóti við vændiskonu sem gerð var út af vændishring er kallaður var „Emperors Club VIP“ og starfaði í nokkrum borgum í Bandaríkjunum auk London og París.

Hringurinn var upprættur af yfirvöldum í New York í síðustu viku.

Spitzer var kjörinn ríkisstjóri í New York í janúar í fyrra, en hafði þá verið dómsmálaráðherra ríkisins í átta ár. Í framboði sínu til ríkisstjóra lagði hann mikla áherslu á siðferðisumbætur í stjórnkerfinu.

Hann er kvæntur og á þrjár dætur.

Spitzer kemur á blaðamannafund ásamt konu sinni í dag þar …
Spitzer kemur á blaðamannafund ásamt konu sinni í dag þar sem hann baðst afsökunar á framferði sínu. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert