Nokkur umfjöllun fer nú fram um það í Bretlandi hversu misjafna umfjöllun barnshvörf fá í fjölmiðlum og hafa þar m.a. verið borin saman mál Madeleine McCann sem hvarf er hún var í fríi með fjölskyldu sinni í Portúgal á síðasta ári og mál hinnar níu ára gömlu Shannon Matthews sem hvarf á leið heim úr skóla fyrir tveimur vikum. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Segja fréttaskýrendur að óhugnanlegur munur sé á áhuga og umfjöllun fjölmiðla á Bretlandi um mál þessara tveggja stúlkna og fjölskyldna þeirra. Þannig hafi stórstjörnur tekið þátt í því að vekja athygli á hvarfi Madeleine og að umfangsikil auglýsingarherferð standi enn yfir vegna málsins.
Tveimur vikum eftir hvarf Shannon sé umfjöllun um hvarf hins vegar að deyja út í fjölmiðlum og að einungis hafi safnast nægt fé til prentunar 24 stuttermabola þar sem lýst er eftir henni.Þessu til útskýringar benda fréttaskýrendur fyrst og fremst á þann mikla mun sem sé á fjölskylduaðstæðum þessara tveggja stúlkna.
Segja þeir foreldrar Madeleine vel stæð og vel menntuð og falla vel undir skilgreiningu fyrirmyndarfjölskyldunnar. Móðir Shannon á hins vegar sjö börn með fjórum mönnum og tengist þar að auki dæmdum glæpamönnum.
Þá hefur verið bent á ekkert bendi til annars en að Madeleine hafi verið hamingjusamt barn allt fram að því að hún hvarf en að vitað sé að Shannon var mjög ósátt við aðstæður sínar og að henni leið ekki vel síðustu dagana áður en hún hvarf.
Það skjóti því skökku við hversu sinnulaus almenningur sé um örlög Shannon og að svo virðist sem fjölmiðlum og almenningi sé mun umhugaðra um sum börn en önnur í bresku samfélagi.
Ekkert hefur spurst til Shannon, sem er frá Dewsbury Moor í West Yorkshire, frá því hún hélt heim á leið úr sundtíma þann 19. febrúar. Hefur móðir hennar lýst því yfir að hún telji jafnvel að einhver kunnugur stúlkunni hafi numið hana á brott og faðir hennar segist óttast að hún sé í haldi einhvers staðar.