Erfðarannsóknir og umhverfisspjöll „nýju syndirnar"

Benedikt páfi þykir mun umhverfissinnaðri en Jóhannes Páll páfi.
Benedikt páfi þykir mun umhverfissinnaðri en Jóhannes Páll páfi. AP

Gianfranco Girotti, erkibiskup og annar æðsti yfirmaður Páfagarðs í málefnum er varða syndaflausn og yfirbót, segir í viðtali við blaðið L'Osservatore Romano, að hann telji mengun jarðarinnar og erfðarannsóknir og breytingar vera syndir nútímans. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Biskupinn segir í viðtali sem birt er undir fyrirsögninni „Nýjar gerðir félagslegra synda” að tilraunir með erfðabreytingar á mönnum séu alvarleg brot gegn grundvallareðli mannsins. Þá segir hann eyðileggingu vistkerfis jarðar vera annað dæmi um höfuðsynd nútímans.

Girotti nefnir einnig fíkniefnasölu og félagslega og efnahagslega mismunun sem dæmi um alvarlegar syndir nútímans. Segist hann óttast að það bendi til þverrandi siðferðiskenndar að sífellt færri kaþólikkar játi syndir sínar fyrir presti eins og hefð er fyrir innan kaþólsku kirkjunnar.  

Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var á vegum kaþólska háskólans í Mílanó fara 60% kaþólskra í landinu ekki lengur til skrifta.  Þá sýnir könnunin að 30% aðspurðra telja enga þörf fyrir milligöngu prests er þeir biðjast fyrirgefningar á syndum sínum.

Páfagarður er andvígur stofnfrumurannsóknum og hefur varað alvarlega við einræktun. Þá hefur Benedikt páfi ítrekað lýst áhyggjum af þróun umhverfismála. Segja fréttaskýrendur að frá því hann varð páfi hafi stefna Páfagarðs orðið mun grænni en í tíð Jóhannesar Páls páfa annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert