Flugskeyti sem skotið var yfir landamærin frá Gasasvæðinu hafnaði í bænum Ashkelon í Ísrael um miðjan dag í dag. Árásin er fyrsta flugskeytaárásin sem gerð er frá Gasasvæðinu í sólarhring en mjög hefur dregið úr flugskeytaárásum herskárra Palestínumanna frá því á föstudag. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Hin herskáu samtök PFLP hafa lýst ábyrgð á flugskeytaárásinni á hendur sér en Mark Regev, talsmaður Ísraelsstjórnar, segir ábyrgðina liggja hjá Hamas-samtökunum.
"Hamas stjórna Gasasvæðinu og samtökin bera því ábyrgð á hverju einasta flugskeyti sem skotið er frá Gasa til Ísraels. Við gerum okkur fulla grein fyrir öfgasinnaðri og hatursfullri stefnu Hamas,” sagði hann.
Árásin var gerð skömmu eftir að Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, heimsótti Ashkelon, en hann sagði þar m.a. að engin leið væri til að tryggja að fleiri flugskeytaárásir yrðu ekki gerðar á borgina.
Á undanförnum vikum hafa herskáir Palestínumenn daglega skotið fjölda flugskeyta yfir landamærin til Ísraels. Umskipti undanfarinna daga þykja því svo mikil að líkum hefur verið leitt að því að yfirvöld í Ísrael og forsvarsmenn Hamas-samtakanna, sem fara með völd á Gasasvæðinu, hafi gert með sér leynilegt vopnahléssamkomulag.
Fulltrúar beggja aðila hafa neitað því að slíkur samningur hafi verið gerður en í morgun staðhæfði Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, að samkomulag hefði náðst með milligöngu Egypta.