Repúblikanar í New York ríki munu sækjast eftir því að lögð verði fram ákæra á hendur Eliot Spitzer, ríkisstjóra í New York, til embættismissis, ef hann segir ekki af sér innan 48 klukkustunda, að sögn talsmanns þingmanns í minnihluta.
Á fréttavef Reuters kemur fram að New York Times hafi greint frá því í gær að Spitzer hafi átt stefnumót með vændiskonu á hóteli í Washington. Eftir það kom Spitzer fram opinberlega og baðst afsökunar á framferði sínu, en sagði ekki af sér embætti.
„Ríkistjórinn hefur 48 klukkustundir til þess að segja af sér, annars verður lögð fram ákæra á hendur Spitzer til embættismissis," sagði James Tedisco, talsmaður minnihlutans á ríkisþinginu í New York.
Spitzer, sem er demókrati, var kjörinn ríkisstjóri í New York í janúar í fyrra, en hafði þá verið dómsmálaráðherra ríkisins í átta ár. Í framboði sínu lagði hann mikla áherslu á siðferðisumbætur í stjórnkerfinu.
Í New York Times kom fram að Spitzer hafi greitt vændiskonunni 1000 dollara fyrir klukkustund en Alríkislögreglan tók það sem fór fram á fundi Spitzers með vændiskonunni upp á segulband.