Abbas segir Ísraela hafa samið við Hamas

Hamas-liðar fögnuðu á götum úti á Gasasvæðinu eftir að átta …
Hamas-liðar fögnuðu á götum úti á Gasasvæðinu eftir að átta Ísraelar létu lífið í skotárás Palestínumanns síðastliðinn föstudag. AP

Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, staðhæfir að ráðamenn í Ísrael hafi samið um vopnahlé við fulltrúa Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu með aðstoð egypskra milligöngumanna. Yfirvöld í Ísrael vísuðu í gær á bug fréttum af slíku samkomulagi. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. Talsmaður Hamas-samtakanna neitar því einnig að slíkt samkomulag hafi náðst og segir að dregið hafi úr átökum á svæðinu eftir að Ísraelar hafi gert sér grein fyrir því að hernaðaraðgerðir þeirra á Gasasvæðinu muni ekki bera neinn árangur. 

í tilkynningu sem Abbas sendi frá sér í dag staðhæfir hann að slíkt samkomulag hafi náðst og að leiðtogar Hamas-samtakanna hafi samið við Ísraela, þar sem þeir hafi óttast um eigið líf. 

Engum flugskeytum hefur verið skotið frá Gasasvæðinu yfir til Ísraels síðasta sólarhringinn og engar fréttir hafa borist af aðgerðum Ísraelshers á svæðinu.

Samkvæmt heimildum Ha’aretz fengu yfirmenn Ísraelshers fyrirmæli um að draga úr aðgerðum gegn Palestínumönnum á Gasa eftir að samkomulag náðist í leynilegum viðræðum þessara aðila. Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og  Ehud Barak varnarmálaráðherra neita því hins vegar báðir að viðræður við Hamas hafi farið fram. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert