Barðist fyrir Frakka í fyrri heimsstyrjöld

Lazare Ponticelli.
Lazare Ponticelli. Reuters

Lazare Ponticelli, síðasti hermaðurinn, sem barðist í fyrri heimsstyrjöldinni fyrir Frakka og var enn á lífi, lést í dag 110 ára að aldri. Þessu greindi forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, frá í dag.

 „Í dag læt ég í ljós þá miklu sorg sem þjóðin upplifir.  Ég hylli ítalska drenginn sem kom til Parísar til að vinna fyrir sér og kaus að verða franskur,“ sagði forsetinn í yfirlýsingu en Pontielli fæddist á Ítalíu.

„Í ágústmánuði 1914 þegar hann var 16 ára laug hann um aldur sinn til að ganga í Útlendingahersveitina og verja landið sem hann vildi tilheyra. Árið 1921 ákvað hann að vera endanlega um kyrrt hér,“ sagði Sarkozy.

Einungis fáeinir hermenn sem börðust í heimsstyrjöldinni fyrri eru enn á lífi í heiminum í dag. Alls börðust um 8 milljónir manna undir merkjum Frakka.

Löngum vildi Ponticelli ekki að lýst yrði yfir þjóðarsorg við andlát hans en lét nýlega undan þrýstingi frá yfirvöldum og sagðist muna þiggja þann heiður til að heiðra minningu þeirra sem fallið hefðu í stríðinu.    

Frönsk stjórnvöld greindu frá því, að messa yrði haldin Pontielli til heiðurs á Les Invalides, sögufræga hersjúkrahúsinu í París þar sem grafhýsi Napóleons er. Enn hefur ekki verið ákveðið hvenær athöfnin fer fram. Háttsettir fulltrúar stjórnvalda munu verða viðstaddir athöfnina.

Einungis tveimur mánuðum fyrr lést næstsíðasti eftirlifandi franski hermaðurinn sem barðist í  fyrri heimsstyrjöldinni, en hann náði einnig 110 ára aldri.  Um 8,5 milljón Frakkar börðust í styrjöldinni. 

Þegar Ponticelli rifjaði upp gamlar stríðsminningar sagði hann eitt sinn; „Þið skjótið á menn sem eru feður: stríð er algerlega heimskulegt“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert