„Gagnrýni ekki bönnuð í Pentagon"

William Fallon
William Fallon AP

„Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir afsögn æðsta yfirmanns herafla Bandaríkjanna í Miðausturlöndum í gær, ekki vera merki yfirvofandi stefnubreytingar bandarískra stjórnvalda í Íran, Írak og Afganistan. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Þá segir Geoff Morrell, yfirmaður upplýsingadeildar bandaríska varnarmálaráðuneytisins Pentagon, ekki rétt að líta á afsögn hans sem vísbendingu um gagnrýn umræða sé ekki að skapi ráðuneytisins.   

Gates tilkynnti um afsögn Williams Fallons aðmíráls í gær og í kjölfarið sagði Fallon ástæðu afsagnar sinnar vera þá upplifun almennings að um djúpstæðan ágreining sé að ræða á milli hans og George W. Bush Bandaríkjaforseta.

Sagði hann það skapa erfitt og vandræðalegt andrúmsloft að almenningur skuli hafa það á tilfinningunni að skoðanir hans stangist á við skoðanir stjórnarinnar.

Sjálfur fór Fallon ekki nánar út í það hversu mikill hinn raunverulegi ágreiningur væri en Gates sagðist ekki telja slíkan ágreining hafa verið til staðar í raun.

Mikið hefur verið rætt um andstöðu Fallons við hugsanlegar hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna gegn Íran og í aprílhefti Esquire tímaritsins er hann kallaður „sterkasti maðurinn sem standi á milli Bandaríkjastjórnar og stríðs við Íran.”

Demókratar á Bandaríkjaþingi hafa lýst áhyggjum af því að afsögn hans sé til marks um það að gagnrýn umræða um stefnu stjórnarinnar sé henni ekki að skapi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert