„Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir afsögn æðsta yfirmanns herafla Bandaríkjanna í Miðausturlöndum í gær, ekki vera merki yfirvofandi stefnubreytingar bandarískra stjórnvalda í Íran, Írak og Afganistan. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Þá segir Geoff Morrell, yfirmaður upplýsingadeildar bandaríska varnarmálaráðuneytisins Pentagon, ekki rétt að líta á afsögn hans sem vísbendingu um gagnrýn umræða sé ekki að skapi ráðuneytisins.
Gates tilkynnti um afsögn Williams Fallons aðmíráls í gær og í kjölfarið sagði Fallon ástæðu afsagnar sinnar vera þá upplifun almennings að um djúpstæðan ágreining sé að ræða á milli hans og George W. Bush Bandaríkjaforseta.
Sagði hann það skapa erfitt og vandræðalegt andrúmsloft að almenningur skuli hafa það á tilfinningunni að skoðanir hans stangist á við skoðanir stjórnarinnar.
Sjálfur fór Fallon ekki nánar út í það hversu mikill hinn raunverulegi ágreiningur væri en Gates sagðist ekki telja slíkan ágreining hafa verið til staðar í raun.
Mikið hefur verið rætt um andstöðu Fallons við hugsanlegar hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna gegn Íran og í aprílhefti Esquire tímaritsins er hann kallaður „sterkasti maðurinn sem standi á milli Bandaríkjastjórnar og stríðs við Íran.”