Hamas setur skilyrði fyrir vopnahléi

Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu, er hann flutti ræðu …
Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu, er hann flutti ræðu sína í háskólanum í Gasaborg í dag. AP

Palestínsku Hamas-samtökin hafa sett þau skilyrði fyrir vopnahléssamkomulagi við Ísraela að þeir hætti öllum hernaðaraðgerðum á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum og opni allar landamærastöðvar á landamærum sjálfstjórnarsvæðanna og Ísraels. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Staðhæft var í gær að vopnahléssamkomulag hefði náðst en það var borið til baka bæði af ísraelskum ráðamönnum og fulltrúum Hamas-samtakanna.

„Það verður að liggja fyrir skuldbinding Ísraela um að öllum hernaðaraðgerðum gegn þjóð okkar, aftökum, drápum og árásum verði hætt, að lokun Gasasvæðisins verði aflétt og landamærastöðvar opnaðar að nýju,” sagði Ismail Haniyeh, leiðtogi stjórnmálaarms samtakanna í ræðu sem hann hélt á Gasasvæðinu í dag. Þá sagði hann hugsanlegan vopnahléssamning verða að gilda bæði um Gasasvæðið og Vesturbakkann og vera gagnkvæmt, heildrænt og taka gildi þegar í stað. 

Yfirvöld í Egyptalandi hafa að undanförnu reynt að koma á vopnahléi á milli Ísraela annars vegar og Hamas og Jihad-samtakanna á Gasasvæðinu hins vegar. Í gær lýsti Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, því yfir að slíkt samkomulag hefði náðst. Þá sagði hann ótta leiðtoga Hamas-samtakanna um eigið líf hafa gert það að verkum að þeir væru nú reiðubúnir til samninga við Ísraela.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert