Öldungadeildarþingmaðurinn Barack Obama fór með sigur af hólmi í prófkjöri bandaríska Demókrataflokksins í Mississippi í gær eins og búist hafði verið við. Kosið var um 33 kjörmenn á flokksþingi demókrata í júní.
Þegar búið var að telja atkvæði frá 80% kjörstaða hafði Obama fengið 59% atkvæða en öldungadeildarþingmaðurinn Hillary Clinton 39%. Útgönguspár sjónvarpsstöðva bentu til þess, að 9 af hverjum 10 blökkumönnum, sem tóku þátt í prófkjörinu, hefðu kosið Obama en um 70% hvítra kjósenda kusu Clinton.
Framboð Obamas brást í kvöld ókvæða við þegar Geraldine Ferraro, fyrrum varaforsetaefni demókrata og stuðningsmaður Clinton, sagði að ef Obama væri hvítur maður væri hann ekki í þeirri stöðu, sem hann er nú.