Hvert norskt heimili kastar 60 kílóum meira af mat en fyrir tíu árum. Samkvæmt nýrri rannsókn kastaði hvert heimili um 200 kílóum af mat árið 2006 á móti 140 kílóum árið 1996. Um 416 þúsund tonn af mat fara því í ruslið ár hvert í Noregi.
Ástæða þessarar aukningar er talin sú að fólk hreinsar úr ísskápnum vörur sem komnar eru fram yfir síðasta söludag og hendir í ruslið. Það getur t.d. verið ýmis krukkumatur. Að sögn norsks næringarráðgjafa hefur ungt fólk tilhneigingu til að líta ekki við matvöru sem komin er fram yfir síðasta söludag, jafnvel þótt hún sé í fullkomnu lagi.
Þrátt fyrir dagstimplunina t.d. á eggjum þá er varan í lagi lengur en hún segir til um. Samkvæmt Evrópustaðli mega egg ekki vera eldri en 28 daga gömul vegna salmonelluhættu. Hins vegar er lítil hætta á slíku smiti hér á landi. Hægt er að finna út hvort egg séu heil með því að setja þau í skál með vatni. Ef þau sökkva til botns er í lagi með þau. Hægt væri að spara mikla peninga með því að hafa betri yfirsýn yfir það sem er til í ísskápnum.