Indverska lögreglan hefur handtekið ríflega 100 útlæga Tíbeta sem gengu í átt að landamærum Kína. Útlagarnir voru að mótmæla því að Kína héldi Ólympíuleikana og vildu vekja athygli á mannréttindabrotum í Kína og að 49 ár eru síðan trúarleiðtogi Tíbeta Dalai Lama flúði landið eftir mislukkaða uppreisn gegn Kína.
Mótmælendagangan var stöðvuð í um 50 kílómetra frá borginni Dharamsala þar sem Dalai Lama og útlagastjórn hans hafa aðsetur sitt. Samkvæmt fréttavef BBC hefur Indland haft samúð með málstað Tíbeta en ekki leyft fjölmenn mótmæli til að valda ekki vandræðum í samskipum sínum við Kína.
Dalai Lama hefur kallað eftir því að Kína verði beitt frekari þrýstingi vegna mannréttindabrota í landinu.