Skíðaslysum fjölgar í Evrópu

Þessi skíðamaður hefur fullt vald á hraðanum en það á …
Þessi skíðamaður hefur fullt vald á hraðanum en það á ekki við um alla. mbl.is/Skapti

Þrátt fyrir að hjálmar og ýmiskonar öryggisbúnaður sé orðinn algeng sjón í skíðabrekkum bæði í Skandínavíu og Ölpunum þá hefur alvarlegum skíðaslysum fjölgað og telur læknir sem starfar við sænska skíðasvæðið í Åre að hraðinn hafi aukist til muna með tilkomu nýju carving-skíðanna.

Alf Lerner er yfirmaður heilsugæslustöðvarinnar í Åre og sagði hann í samtali við Dagens Nyheter að hann sæi æ fleiri alvarleg beinbrot og þeim færi fjölgandi milli ára.

Hann benti á að í vetur hafi orðið nokkur dauðsföll í Ölpunum sem rekja má til gríðarlegs hraða sem skíðafólk hefur greinilega ekki alltaf haft vald á. Í febrúar lést 44 ára sænsk kona er hún og 41 árs þýskur maður rákust saman í Saalbach-Hinterglemm. Þjóðverjinn fékk slæman heilahristing.

Tíu dögum síðar rakst sænskur maður á 14ára dreng frá Tékklandi sem lést þrátt fyrir að hann var með hjálm.

Lerner telur að tilfellum sem þessum fari án efa fjölgandi, hann segir að fólk geti nú náð svo miklum hraða að það láti lífið þrátt fyrir allan öryggisbúnað.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka