Elsta vændishúsinu í rauða hverfinu í Hamborg verður lokað innan tíðar vegna skorts á viðskiptavinum. Hotel Luxor var stofnsett 1948 en hefur verið selt fjárfesti sem ætlar ekki að halda rekstrinum áfram.
Í samtali við Hamburg Morgenpost og Bild kenndi frú Waltraud Mehrer, forstöðukona vændishússins, meðal annars auðfengnu klámi á netinu um lægð í viðskiptunum sem og auknum umsvifum símavændiskvenna og nefndi að líka að hávær diskótek og dansstaðir í St Pauli hverfinu fældu viðskiptavinina frá hinu hefðbundna vændishúsi.
Rekstur vændishússins stóð í hvað mestum blóma á áttunda áratug síðustu aldar er það var opið alla daga vikunnar með 12 vændiskonur í vinnu. Nú er einungis opið frá þriðjudegi til fram á föstudagskvöld og 4 konur starfa þar.