Lögregla hefur lokað af og umkringt þrjú munkaklaustur í Lhasa, höfuðborg Tíbet, eftir mótmælaaðgerðir gegn kínverskum stjórnvöldum, sem hafa staðið yfir í fimm daga. Fram kom í kínverskum fjölmiðlum í morgun að komið hafi til átaka í mótmælunum og m.a hafi verið kveikt í verslunum í Lhasa.
Á fréttavef BBC kemur fram að erfitt sé að fá staðfestar fréttir frá Tíbet þar sem aðgangi að fjölmiðlum er stranglega stjórnað, en sjónvarvottar segja að 600 munkar frá Drepung og Sera klaustrunum hafi tekið þátt í friðsamlegum mótmælum og að lögregla hafi sprautað táragasi á þá. Mannréttindahópar segja mótmælin vera þau mestu sem hafi verið í Tíbet í nærri tvo áratugi og hafa þau dreifst frá höfuðborginni Lhasa til sveitaþorpa. Fregnir herma einnig að munkar hafi verið handteknir og að sumir séu í hungurverkföllum.
Mótmælin hófust á mánudaginn þegar liðin voru 49 ár frá misheppnaðri uppreisn Tíbeta gegn kínverskri stjórn, en margir fóru í útlegð eftir hana, þar á meðal andlegur leiðtogi Tíbeta, Dalai Lama.