Nokkrir hafa látið lífið í mótmælum í Lhasa í Tíbet, að því er kemur fram í upplýsingum frá AFP fréttastofunni. Starfsmaður á neyðarþjónustu í borginni segir að margir séu særðir en engar tölur um látna eða særða hafa komið fram.
Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, lýsti yfir áhyggjum á ástandinu í Tíbet í dag og bað kínversk stjórnvöld um að hætta að beita valdi. Leiðtogar Evrópusambandsríkja hafa hvatt kínversk stjórnvöld til þess að sýna stillingu eftir að til átaka kom í höfuðborginni Lhasa í dag. Það sama geri Bandaríkjastjórn nú síðdegis.
„Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig friðsæl mótmæli hafa þróast í óeirðir síðastliðna daga í Lhasa og á fleiri stöðum í Tíbet. Mótmælin eru merki um djúpstæða reiði Tíbeta í garð núverandi stjórnvalda," segir í yfirlýsingu frá Dalai Lama. „Ég bið því kínversk stjórnvöld um að hætta að beita valdi og snúa sér að því að leysa vandann í samvinnu við tíbesku þjóðina."
Utanríkisráðherra Frakklands, Bernard Kouchner, og Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, tjáðu sig um ástandið í Tíbet á blaðamannafundi í Brussel, og sögðust hafa miklar áhyggjur af gangi mála. Hefur Evrópusambandið hvatt kínversk stjórnvöld til að sýna stillingu og virða mannréttindi.
Erlendir ferðamenn í Tíbet hafa sagt frá því að upplausn og ringulreið sé í Lhasa, og að þeim hafi verið ráðlagt að fara ekki út af hótelum sínum. Franskur ferðamaður sagði í samtali við AFP fréttastofuna að verslanir hafi verið brenndar og að lögregla og her hafi verið mjög áberandi.
„Skelfing braust út þegar lögreglubílar komu í hrönnum, fararstjórinn varð hræddur og við hlupum burt með öllum hinum, þar á meðal verslanaeigendum," sagði ferðamaðurinn.
Veitingastöðum og verslunum hefur verið lokað í borginni og að sögn eiganda ferðaskrifstofu í Lhasa er talið að útgöngubann verði sett, og heyrst hefur að engum ferðamönnum verði hleypt inn í Tíbet frá og með morgundeginum.
Mótmælin gegn stjórn Kínverja eru þau mestu sem hafa verið í 20 ár, en þau hófust á mánudaginn þegar 49 ár voru liðin frá því að Tíbetar gerðu uppreisn gegn kínverskum stjórnvöldum. Margir Tíbetar, þar á meðal Dalai Lama, voru gerðir útlægir eftir uppreisnina.