Myndbandsupptökur af sóknarpresti Baracks Obama, Jeremiah Wrigh, Jr., hafa vakið mikla athygli í Bandaríkjunum en á þeim segist presturinn trúa því að bandarísk stjórnvöld hafi átt þátt í hryðjuverkaárásinni 11. september 2001 og hafi breitt út alnæmi, svo eitthvað sé nefnt.
Fox fréttastöðin hefur sýnt upptökur af samkomum hjá Wright, Jr., og hafa þær vakið talsverða athygli. Wright hefur verið sóknarprestur Obama í 20 ár og gaf m.a. saman Obama og Michelle konu hans. Í skrifum sínum fyrir bókina The Audacity of Hope sagðist Obama hafa leitað til Wright sem andlegs leiðbeinanda.
Nú hafa herbúðir Obama reynt að skáka sóknarprestinum til hliðar og sagði Obama m.a. í tilkynningu að hann væri ekki sammála öllu sem presturinn segi í prédikunum sínum. Það hefur þó vakið athygli að Obama afneitar hvorki sóknarpresti sínum né öllum hans staðhæfingum heldur segist einungis ekki vera sammála öllu sem hann segir.
Margir stuðningsmenn Obama vilja að hann afneiti sóknarprestinum og hans staðhæfingum algerlega, að því er fram kemur á fréttavef Fox News.