Dalai Lama segir menningarlegt þjóðarmorð framið í Tíbet

Tíbeti hrópar slagorð gegn Kínverjum í Kathmandu, höfuðborg Nepals, í …
Tíbeti hrópar slagorð gegn Kínverjum í Kathmandu, höfuðborg Nepals, í morgun. Reuters

Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, fordæmdi í dag það sem hann kallaði ógnarstjórn Kínverja í Tíbet og menningarlegt þjóðarmorð. Krafðist hann alþjóðlegrar rannsóknar á átökum, sem brutust út í síðustu viku milli mótmælenda og kínverska hersins.

Útlagastjórn Dalai Lama, sem hefst við á Indlandi, sagðist í morgun hafa fengið staðfestar fréttir af því, að 80 manns hefðu látið lífið í átökunum. Þar á meðal hefðu 26 verið skotnir til bana nálægt fangelsi í Lhasa, höfuðborg Tíbets.

„Þeir nota einfaldlega ofbeldi til að líkja eftir friði, friði sem komið er á með valdi og ógnarstjórn," sagði  Dalai Lama í yfirlýsingunni, sem send var frá Dharamshala á Indlandi. Þar hefur hann búið frá því hann flýði land eftir misheppnaða uppreisn gegn Kínverjum árið 1959. 

Málgagn kínverskra stjórnvalda í Tíbet sagði í morgun, að heyja yrði styrjöld fólksins gegn þeim, sem vildu kljúfa Tíbet frá Kína. Fordæma yrði þessa fjandsamlegu hópa og afhjúpa hina ófrýnilegu ásýnd hóps Dalai Lamas. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert