Íhuga að sniðganga ÓL í Peking

Verið er að leggja síðustu hönd á nýja þjóðarleikvanginn í …
Verið er að leggja síðustu hönd á nýja þjóðarleikvanginn í Peking. Leikvangurinn, sem einnig er nefndur Fuglshreiðrið, verður aðalleikvangur ólympíuleikanna í ágúst. Reuters

Thomas Bach, varaformaður Alþjóðaólympíunefndarinnar, segir að nokkrir heimskunnir íþróttamenn séu að íhuga að mæta ekki til leiks á ólympíuleikunum, sem haldnir verða í Peking í Kína í ágúst í sumar. Með því vilji þeir mótmæla aðgerðum kínverska hersins gegn mótmælendum í Tíbet í síðustu viku.

„Nokkrum íþróttastjörnum líður illa þegar þeir hugsa til ólympíuleikanna. Sumir eru jafnvel að íhuga að hætta við að taka þátt," sagði Bach við þýska blaðið Bild am Sonntag í dag.

Bach sagðist skilja afstöðu íþróttamannanna en ráðlegði þeim að taka þátt í ólympíuleikunum.  Hann sagði að ólympíunefndin væri þeirrar skoðunar, að leikarnir í Kína muni stuðla að opnara þjóðfélagi þar og íþróttamenn geti ekki leyst vandamál, sem framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna hefðu fengist við áratugum saman.

„Við erum þeirrar skoðunar að leikarnir geti leitt til breytinga en þeir eru ekkert töfralyf," sagði Bach, sem sagði umræðuna nú minna sig á umræðuna fyrir ólympíuleikana í Moskvu. Þá hættu margar vestrænar þjóðir við þátttöku vegna innrásar Sovétmanna í Afganistan. 

Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbetbúa, sem er í útlegð á Indlandi, fordæmdi ofbeldisverkin í Tíbet í morgun en sagðist ekki styðja kröfur um að ólympíuleikarnir í Peking verði sniðgengnir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Ella mannvera Ronja Chihuahua og Lilo Boxer/Labrador: Tíbet
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert