Kínversk lögregla skaut að minnsta kosti þrjá Tíbeta til bana í mótmælum í Sichuan héraði í Kína í morgun. Tíbetskir munkar stóðu fyrir mótmælum gegn kínverskri stjórn í Tíbet, fyrir framan stjórnarráð héraðsins, í bænum Ngawa, en margir Tíbetar búa á þessu svæði.
Samkvæmt upplýsingum AFP fréttastofunnar, kveiktu mótmælendur í bílum og reyndu að ráðast gegn höfuðstöðvum lögreglu, sem þá hóf skothríð gegn mótmælendum. Að sögn samtakanna Frelsum Tíbet, voru fjórir skotnir til bana en hundruð Tíbeta tóku þátt í mótmælunum.