Leikfangafyrirtækið Mega Brands hefur innkallað um 2,4 milljónir leikfanga sem framleidd eru í Kína vegna hönnunargalla. Er talin hætta á að litlir hlutir geti dottið af leikföngunum og börn gleypt þá. Ef fleiri en einn smáhlutur er gleyptur geta þeir fests saman í maga barnanna og valdið sýkingum og fleiri sjúkdómum.
Um er að ræða 1,1 milljón Magtastik og Magnetix Jr. Fyrirtækinu og neytendasamtökum hafa borist upplýsingar um 19 tilvik þar sem smá hlutir hafa dottið af leikföngunum. Í einu tilviki setti 18 mánaða gamalt barn slíkan hlut upp í sig en gleypti ekki. Í öðru tilviki þurfti að fara með þriggja ára gamlan dreng til læknis þar sem hann hafði fest smáhlut í nös.
Jafnframt eru innkallaðir 1,3 milljónir MagnaMan karlar en vitað er til þess að í 25 tilvikum hafi smá hlutir losnað af körlunum.
Fyrir tveimur árum þurfti Mega Brands að innkalla 3,8 milljónir Magnetix byggingasetta þar sem einn barn lést og fjögur börn veiktust alvarlega eftir að þau gleyptu smá hluti úr settinu.
Leikföngin sem nú voru innkölluð voru seld í leikfangaverslunum víða um Bandaríkin, svo sem í Wal-Mart, Target, Toys "R" Us og Kmart á tímabilinu janúar 2005 til desember 2007.
Nánar um þau leikföng sem búið er að innkalla