Dýrast í Ósló

Við brygguna í Osló.
Við brygguna í Osló. mbl.is/Golli

Samkvæmt útreikningum sem svissneski bankinn UBS birti í dag er Ósló dýrasta borg í heimi fyrir ferðamenn, en því næst koma London og Kaupmannahöfn. Má þessa niðurstöðu ekki síst rekja til breytinganna sem orðið hafa á gengi evrunnar og annarra gjaldmiðla undanfarið.

Dublin er svo í fjórða sæti, en borgir í Bandaríkjunum fara neðar á listann eftir því sem bandaríski dollarinn veikist. Þannig er New York komin niður í 18. sætið, fyrir neðan til dæmis Tókýó, Brussel og Lyon.

„Snörp lækkun bandaríska dollarans hefur gert að verkum að það er nú mun ódýrara fyrir evrópska ferðamenn að versla í New York. London telst nú 26% dýrari,“ segir í niðurstöðum bankans.

Þótt Ósló sé dýrust fyrir ferðamenn er dýrast að búa í London, þegar leigukostnaður hefur verið tekinn með í reikninginn, en Ósló fylgir í kjölfarið, og svo koma Dublin, Kaupmannahöfn og New York.

Íbúar í Zürich í Sviss hafa hæstar tekjur eftir skatta, og sé húsnæðisverð ekki tekið með í reikninginn er kaupmáttur Zürich-búa einnig sá mesti.

Neðst á listanum eru íbúar í Jakarta á Indónesíu, sem hafa lægstu launin miðað við vinnuframlag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka