Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Barack Obama fordæmdi í dag ýmis ummæli, sem fyrrum sóknarprestur hans hefur látið falla í stólræðum. Obama sagðist þó ekki getað afneitað prestinum fremur en hann gæti afneitað samfélagi blökkumanna og bætti við bandaríska þjóðin geti ekki hunsað kynþáttamál.
Obama, sem keppir við Hillary Clinton um útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins, flutti ræðu í Pennsylvaníu í dag, og sagði að skoðanir prestsins Jeremiah Wright, fyrrum sóknarprests Obamasí Chicago, væru ekki í samræmi við hans skoðanir. Hefur Obama ekki talað jafn opinskátt um kynþáttamál í kosningabaráttunni til þessa og hann gerði í dag.
„Ég hef þegar fordæmt afdráttarlaust yfirlýsingar séra Wright, sem hafa valdið miklum deilum," sagði Obama. Hann sagðist vita, að Wright væri afar gagnrýninn á bandarísk stjórnvöld.
Wright hefur m.a. sakað bæði Bandaríkin og Ísrael um hryðjuverkastarfsemi og hvatt blökkumenn til að syngja: Guð fordæmi Bandaríkin. Eru þessi ummæli talin vera til þess fallin að skaða Obama og hann viðurkenndi í ræðunni, að myndband, sem sýnt hefur verið í sjónvarpi og á netinu af ræðum prestsins hefðu haft áhrif á framboð hans.
Obama sagði, að hann liti á Wright sem einn úr fjölskyldu sinni. „Ég get ekki afneitað honum frekar en ég get afneitað samfélagi blökkumanna og ég get ekki frekar afneitað honum en hvítri ömmu minni," sagði Obama og bætti við að amma hans hefðu stundum viðhaft ummæli sem túlka hefði mátt sem kynþáttafordóma.
„En reiðin er raunveruleg, hún er magnþrungin og það er ekki hægt að óska henni burtu, fordæma hana án þess að skilja rætur hennar. Með því móti er aðeins verið að auka á misskilninginn sem ríkir milli kynþáttanna," sagði Obama.
Hann sagði að nú væri kominn tími til að bæta fyrir sögulegt ranglæti. „Þvert á það sem margir gagnrýnendur mínir halda, svartir og hvítir, hef ég aldrei verið það barnalegur að ég trúi því að við getum brúað kynþáttabilið í einni kosningabaráttu eða með einu framboði - einkum þó framboði sem er eins ófullkomið og mitt.
En ég er sannfærður um það, og sú sannfæring byggist á trú minni á Guð og trúnni á bandarísku þjóðina, að ef við vinnum saman getum við læknað nokkur gömul kynþáttasár," sagði Obama.