Forseti Kenýa, Mwai Kibaki, hefur undirritað tvö lagafrumvörp um að embætti forsætisráðherra og tveggja staðgengla hans verði stofnað. Þingið í Kenýa samþykkti lagabreytingarnar samhljóða í dag. Í kjölfar þess er búist við að Kibaki útnefni leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Raila Odinga, sem forsætisráðherra í nýrri samsteypustjórn.
Kibaki og Odinga komust að samkomulagi um samsteypustjórn með aðstoð sáttasemjarans Kofi Annans, fyrrum framkvæmdastjóra SÞ, eftir að blóðug átök brutust í Kenýa í kjölfar forsetakosninga þar í landi í desember. Kibaki fór með sigur af hólmi í kosningunum en stjórnarandstaðan sakaði hann um að hafa hagrætt úrslitum kosninganna. Mótmæli og átök brutust út í kjölfarið og féllu að minnsta kosti 1500 manns í valinn og 600.000 manns flúðu heimili sín.