Forskot Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrata, á mótframbjóðanda sinn Hillary Clinton er að hverfa. John McCain, forsetaefni repúblikana, hefur nú forskot á þau bæði í skoðanakönnunum á landsvísu.
Ekki er lengur marktækur munur á forskoti Obama á Hillary Clinton en nýjustu skoðanakannanir sýna að hann sé með 47% fylgi og Clinton með 44% fylgi. En hafa verður í huga að skekkjumörkin eru 4%. Þetta er mikið hrun í fylgi öldungadeildarþingmannsins því í febrúar var hann með 14% meira fylgi en Clinton eftir að hafa sigrað í 10 forkosningum í röð, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.
Skoðanakannanir gefa einnig til kynna að McCain njóti góðs af langvarandi baráttu Obama og Clinton um tilnefningu síns flokks. McCain hefur 46% fylgi á móti 40% hjá Obama en sé hann borinn saman við Clinton hlýtur McCain 48% á móti 40% hjá Clinton. „Það kemur ekki á óvart að McCain græði á þessu þar sem það ríkir algjör ringulreið hjá demókrataflokknum,“ sagði John Zogby skoðanakönnuður.
Þessi viðsnúningur í fylgi Obama má að einhverju leyti rekja til sóknarprestsins Jeremiah Wright og prédikana hans sem fjölmiðlar hafa vakið mikla athygli á. Obama fordæmdi ýmis ummæli sem Wright lét falla en hann sagðist ekki geta afneitað prestinum frekar en hann gæti afneitað samfélagi blökkumanna. Þessi uppákoma er talin hafa valdið töluverðum skaða í herferð Obama.